Sunnudagsgöngur

Dagsetning Lagt af stað Lýsing ferðar
Sunnudagur, 28. Júlí 2019 10:00

Búrfell 2 skór

28. júlí, kl. 10.  Búrfell (265 m hæð). Ekið að Fossvöllum við þjóðveg 917 (hlíðarvegur) , utan Brúarásskóla. Frá Fossvöllum er gengið upp með Laxá og síðan Hólmá sem rennur úr Búrfellsvatni. En Búrfellsvatn er ofan við Búrfellið. Fararstjóri: Jón Óli Benediktsson.

Sunnudagur, 4. Ágúst 2019 09:00

Stórurð (perla) 2 skór

4. ágúst, kl. 9. Stórurð er án efa eitt stórfenglegasta náttúrufyrirbrigði á Austurlandi og þó víðar væri leitað en talið er að hinar stóru steinblokkir sem einkenna hana hafi fallið niður á ís og hann síðan flutt þær fram dalinn og mótað þannig þessa undraveröld. Hinu sérstæða landslagi Stórurðar er erfitt að lýsa með orðum, en það er vissulega stórbrotið, sléttir grasbalar og hyldjúpar tjarnir innan um stór björg á hæð við fjölbýlishús. Yfir öllu þessu gnæfa tignarleg Dyrfjöllin.   

Fararstjóri: Þorsteinn Bergsson.

Sunnudagur, 11. Ágúst 2019 09:00

Hvannárgil (perla) 2 skór

11. ágúst, kl. 9. Hvannárgil er röð gila við Kverkfjallaveg. Afar falleg gil með fjölbreyttum klettamyndunum. Í mið gilinu er falleg hvelfing sem gaman er að skoða. Efsta gilið er mjög stórbrotið og endar í fallegum fossi. Ekin Kverkfjallaleið inn að Hvanná, gengið frá skilti við Kverkfjallaveg F905. Hringleið frá Kjólsstaðaskoru um Vatnsstæði, inn í Hvannárgil neðsta og gegnum þau öll til enda. Fararstjóri: Vernharður Vilhjálmsson.

Sunnudagur, 18. Ágúst 2019 09:00

Þerribjörg (perla) 3 skór

18. ágúst, kl. 9. Þerribjörg er staðsett á Skaganum milli Vopnafjarðar og Héraðsflóa. Klettarnir eru einn af litríkustu sjó klettunum á Íslandi, gulir, appelsínugulir og svartur, skríða þeir fram af heiðinni ofan í grænbláan sjóinn. Ekið út á Hellisheiði og vegslóða að Kattárdal.

Sunnudagur, 25. Ágúst 2019 10:00

Spanarhóll (perla) 2 skór

25. ágúst, kl. 10. Spanarhóll er áberandi stuðlabergshóll í svonefndum Fjórðungi í Heiðinni út og upp af Ormarsstöðum. Innan við hann eru þrír lægri hólar með stuttu bili í beinni röð, einnig úr stuðlagrjóti, sem er meira eða minna brotið upp og myndar stórgrýtta urð. Óreglulegt stuðlaberg kemur einnig fram í Fjórðungshálsbrún, vestur af Spanarhól. Spanarhóll er vel þekktur huldufólksstaður. Ekið inn Fellin að Refsmýri, þaðan er gengið að Spanarhóli.

Sunnudagur, 1. September 2019 10:00

Strútsfoss (perla) 1 skór

1. september, kl. 10.
Strútsfoss í Strútsá steypist fram af brúnum Villingadals sem gengur inn af Suðurdal. Fossinn telst með þeim hærri á landinu en hann er tvískiptur. Neðri hluti hans er um 100 metra hár og sá efri um 20 metrar. Neðan fossins fellur áin í djúpu gili, Strútsgili, og sameinast Fellsá litlu neðar. Að öllum líkindum draga áin og fossinn nafn sitt af strýtulaga klettadrangi eða dröngum í gilinu. Strútsgil er afar litfagurt en í því skiptast á basalthraun og setlög sem eru tugir metra á þykkt. Mikið er um rauð og gulbrún millilög og líparít má sjá á einum stað. Innri-Þverá fellur ofan í gilið skammt frá Strútsfossi og myndar fallega fossaröð. Gönguleiðin að Strútsfossi liggur fá Sturluflöt, innsta bæ í Suðurdal, austan Kelduár. Gengið er upp með Fellsá austanvert í Villingadal. Fossinn sést ekki fyrr en komið er býsna langt inn dalinn.

Sunnudagur, 8. September 2019 10:00

Bjargselsbotnar (perla) 1 skór

8. september, kl. 10. Bjargselsbotnar er gönguleið ofan við Hallormstaðarbæinn. Gönguleiðin er undir endilöngu Hallormsstaðabjargi. Fallegt útsýni er yfir skógi vaxin Hallormstaðarsvæðið og Fljótsdal. Ekið að Hallormsstað og gengið frá Hússtjórnarskólanum og fylgt stikum sem eru ljósgrænar að lit.

Sunnudagur, 15. September 2019 10:00

(Hátúna) Höttur  2 skór

15. september, kl. 10. Höttur (Hátúnahöttur) er tignarlegt fjall, sem rís upp af fjallshryggnum milli Austur-Valla og Fagradals, og er af mörgum talinn bæjarfjall Egilsstaða.  Gengið frá skilti austan (utan) við Gilsá í átt að Grjótánni aðeins utan við Víðihjalla og upp með ánni.  Áfram upp á Hattarhólana og síðan beygt inn eftir og upp á Höttinn (1106 m). 

Sunnudagur, 22. September 2019 10:00

Grjótgarðurinn ofan Hjarðarhaga  2 skór

22. september, kl. 10. Grjótgarður er í Hjarðarhagaheiði, liggur frá efsta fossi í Sauðá (Urðarfossi) norðaustur heiðina í átt að Teigará, sem er um 3-4 km. Garðurinn er hruninn að mestu en þó vel greinilegur, einnig sjást hlutar garðsins við Teigará neðan vegar.
Gönguleiðin að Grjótgarðinum er frá vegamótum Hnefilsdalsvegar 924 innan Hjarðarhaga og er bílum lagt við vegamótin neðan vegar nr.1.   Farið er í gegnum hlið á girðingu ofan vegar og stefnt á neðsta foss í Sauðá, Sitjanda sem myndin er af, síðan upp með Sauðánni upp á dalbrún þar til komið er að Grjótgarðinum. Nokkrir fallegir fossar eru á gönguleiðinni.

Sunnudagur, 29. September 2019 10:00

Stuttidalur  2 skór

29. september, kl. 10. Stuttidalur liggur í austur á milli Hallbjarnarstaðatinds og Haugafjalls. Haugahólar eru geysi mikið berghlaup, eitt hið stærsta á Íslandi, sem fallið hefur úr Haugafjalli milli Stuttadals og Vatnsdals. Gönguleiðin er stikuð og fer hún upp að fallegri tjörn skammt innan við Sjónarhraunið. Upplagt að fara yfir ána og ganga um Haugahólana til baka niður að þjóðvegi.

Gengið frá skilti, sem er við gönguhlið rétt við þjóðveginn utan við Haugaána.

Við erum á Facebook