Um Húsey

Húsey


Húsey er ysti bærinn í Hróarstungu á samnefndu eylendi við mót Jökulsár á Dal (Jöklu) og Lagarfljóts. Húseyjan er u.þ.b. 30 km² þar sem hæst rís er Sandhóll, 13 m yfir sjó.

Stóru árnar tvær hafa átt sinn þátt í að móta þetta svæði. Árið 1946 var Geirastaðakvísl, sem fell úr Jöklu í Lagarfljót, stífluð. Hún braut land til beggja hliða og einangraði Húseyna frá Hróarstungu.

Holskeflur úr Héraðsflóa æða stundum langt upp á Héraðssand. Þar sem brimaldan nær eru ógrónir sandar en sunnan þeirra eru melgresisskúfar. Þegar fjær kemur ströndinni er sandorpið mólendi, melar og votlendi. Í norðanáttum og þurru veðri fjúka jarðvegsefni upp frá ógrónum söndum og sverfur þá bæði og kaffærir aðliggjandi gróður.

Vindrofið veldur því einnig að nýgræður eiga erfitt uppdráttar, þó má finna þarna u.þ.b. 170 tegundir plantna. Markmið landgræðsluaðgerða er að hefta sandfok sem berst í norðlægum áttum frá ströndinni inn yfir gróið land í Húsey. Unnið er að því að sá melgresi í sandfokssvæðin og styrkja gróðurjaðarinn með áburðargjöf.

Húsey er annáluð náttúruparadís og er á Náttúruminjaskrá. Lífríkið í Húsey er sérstakt. Hér er hægt að sjá um 30 tegundir varpfugla. Ferfætlingum bregður fyrir af og til s.s. hreindýrum, refum og minkum. Húsey er selveiðijörð og má huga að selnum, sem oftast eru tugum eða hundruðum saman í ánni eða mókandi á eyrunum andspænis. Silungur og lax er veiddur í net í fljótinu.

Bóndinn á Húsey, Örn Þorleifsson, tekur oft að sér undanvillingskópa og elur þá heima í tjörn rétt við bæinn. Þeir elta hann eins og hundar, þegar að fóðrun kemur. Hann hefur líka laðað að sér grágæsir, sem vappa um eins og heimalningar við bæinn. Örn er orðinn að þjóðsagnapersónu í lifanda lífi og unir sér hið besta með láðs- og lagardýrunum í þessu sérstaka umhverfi.

Nánari upplýsingar eru veittar á Farfuglaheimilinu.

Við erum á Facebook